Um NordBio

Home / Um NordBio

Hvað er NordBio?

Norræna lífhagkerfið (NordBio) er samstarfsverkefni norrænna ráðherranefnda um umhverfismál, fiskveiðar, fiskeldi, landbúnað, matvæli og skógrækt, atvinnulífs-, orkumála- og byggðastefnu, menntun, menningu og rannsóknir. Sérfræðingar á þessum sviðum munu leggja saman krafta sína og vinna að verkefnum sem stuðla að sjálfbærri nýtingu lifandi náttúruauðlinda. Tekið verður  mið af hagsmunum samfélags og umhverfis og stuðlað að uppbyggingu samkeppnishæfs atvinnulífs og nýjum aðferðum í menntun ungmenna.

Þrjú ráðuneyti á Íslandi og þær norrænu ráðherranefndir og samstarfsnet sem þau tilheyra leiða saman krafta sína í formennskuáætluninni undir formerkjum norræna lífhagkerfisins. Þetta eru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti. Verkefni áætlunarinnar munu því krefjast náins þverfaglegs samstarfs.

Unnið verður að verkefnum sem öll miða að frekari virðisauka fyrir umhverfi og samfélag. Norðurlönd hafa góðar forsendur til að ryðja brautina fyrir lífhagkerfið og því er mikilvægt að þau séu leiðandi á því sviði.

Markmið NordBio

 • Að þróa og bæta aðferðir við sjálfbæra framleiðslu og nýtingu afurða í því skyni að örva nýsköpun og atvinnulíf og draga úr álagi á umhverfi á Norðurlöndum.
 • Að styrkja þekkingu sem nýtist við stefnumörkun í atvinnulífi og umhverfismálum með því að efla samstarf á sviði rannsókna, þróunar og nýsköpunar.
 • Að efla nýsköpun á sviði orkunýtingar, fæðuöryggis og lýðheilsu og opna norrænni framleiðslu leið að mörkuðum, svo hún geti nýst vaxandi fólksfjölda í heiminum.
 • Að draga saman árangur af verkefnum sem unnin hafa verið í þágu menntunar til sjálfbærrar þróunar
 • Að stuðla til frambúðar að auknum áhuga ungs fólks á rannsóknum og háskólastarfi á sviði sjálfbærrar framleiðslu og nýtingar.
 • Að leiða saman raunvísindi, tækni, menntun og menningu milli mismunandi skólastiga, stofnana og atvinnulífs.
 • Að bjóða upp á sameiginlegan norrænan vettvang og grundvöll samstarfs, samráðs og skoðanaskipta, þvert á aldur og fagsvið.

Afrakstur NordBio

Innan áætlunarinnar verður unnið að verkefnum sem styðja við markmið hennar. Má þar nefna:

 • Nýsköpunarverkefni sem miða að aukinni verðmætasköpun og bættri nýtingu í matvælaframleiðslu.
 • Fjölbreyttari nýting og virðisaukning skógarafurða.
 • Skoðaðir verða möguleikar sem lúta að innleiðingu vistvænna orkugjafa í skipum.
 • Kennsluverkefnið Biophilia þar sem þróaðar verða nýjar kennsluaðferðir með notkun nýjustu tækni og þar sem sköpun er notuð sem kennslu- og rannsóknaraðferð.
 • Uppbygging vistkerfa til varnar náttúruvá.

Auk framangreindra verkefna leggur Ísland til að stofnaður verði þverfaglegur norrænn samráðsvettvangur – Nordisk BioPanel. Hlutverk hans er m.a. að hvetja til og samræma norrænt samstarf á sviði lífhagkerfisins, kortleggja tækifæri til sóknar í alþjóðlega rannsókna- og þróunarsjóði og styrkja rödd Norðurlandanna í alþjóðlegri stefnumótun og samvinnu.

Ábyrgð og meðábyrgð á NordBio

Ráðherranefnd um fiskveiðar, fiskeldi, landbúnað, matvæli og skógrækt (MR-FJLS) ber ábyrgð á áætluninni í samstarfi við ráðherranefndirnar um umhverfismál (MR-M), atvinnu-, orku- og byggðamál (MR-NER), menntun og rannsóknir (MR-U) og menningu (MR-K).

Nánari upplýsingar veitir:
Hólmfríður Sveinsdóttir, verkefnisstjóri
Sími: 545 8600
Netfang: holmfridur.sveinsdottir@uar.is