Biophilia

Sköpun sem kennsluaðferð
Home / Verkefni / Biophilia

Biophilia kennsluverkefnið snýst um sköpun sem kennsluaðferð og byggir á viðamiklu samstarfi vísinda og lista. Lögð er áhersla á áþreifanlega upplifun á undraheimi vísinda og tónmennta.

Hugarsmíð Bjarkar Guðmundsdóttur

biophilia selection68

Einbeittir ungir menn

Verkefnið á uppruna sinn hér á landi þar sem Björk Guðmundsdóttir tónlistarmaður hefur þróað þessa nýstárlegu aðferð í samstarfi við Háskóla Íslands og Reykjavíkurborg. Með Biophiliu aðferðinni er leitast við að brjóta upp hið hefðbundna kennsluform. Kennarar, fræði- og vísindamenn, listamenn, hugvitsmenn og aðrir þátttakendur vinna þverfaglega, á milli skólastiga, námsgreina, vísinda og lista þar sem sköpun er notuð sem kennsluaðferð. Þessi aðferð eykur möguleika á öflugri þróunarvinnu og býður upp á sameiginlegan vettvang og grundvöll samstarfs, samráðs og skoðanaskipta.

Norrænt samstarf

Í tilefni af formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014 hafa íslensk stjórnvöld leitað eftir samstarfi við hin Norðurlöndin um norrænar áherslur í frekari þróun Biophiliu aðferðafræðinnar. Hvert land, auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands, hefur skipað stýrihóp og tilgreint svæði þar sem myndað verður staðbundið samstarfsnet og Biophilia kennd. Í stýrihópunum eru fulltrúar skólayfirvalda svæðanna, menningarstofnana og háskóla- eða rannsóknarstofnana og sýnir sú samsetning hina þverfaglegu áherslu verkefnisins vel. Þessi átta staðbundnu net munu nota Biophilia aðferðina og auðga hana hvert með sínum hugmyndum og menningu. Stýrihópar netanna mynda síðan sameiginlega norrænt samstarfsnet allra þátttökusvæða og þróa verkefnið áfram á samnorrænum grunni.

Norræna þekkingarlestin

Norræna þekkingarlestin er hluti af áætlun Íslands á formennskuárinu og tengist Biophiliu kennsluverkefninu. Þekkingarlestin sækir fyrirmynd sína í Háskólalest Háskóla Íslands. Megináherslan er á lifandi vísindamiðlun til ungs fólks og dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Í Háskólalestinni fer saman fræðsla fyrir almenning og samstarf við skóla, sveitarfélög og atvinnulíf, samhliða því sem áhugi ungs fólks er vakinn á vísindum og fræðum. Ísland, Finnland, Noregur, Svíþjóð, Færeyjar og Grænland munu taka þátt í Norrænu þekkingarlestinni og er Biophilia kennsluverkefnið eitt af þeim verkefnum sem lagt er upp með að kynna, auk verkefna sem hvert svæði fyrir sig velur að leggja áherslu á.

Markmiðið með norræna samstarfinu er að

  • ýta undir nýsköpun í skólastarfinu með því að þróa kennsluaðferðir sem sameina náttúruvísindi, sköpun og tækni, og laga að ólíkum skólastigum og stofnunum
  • fleyga hefðbundna kennsluhætti með þverfaglegri nálgun, þvert á aldurshópa, kennslugreinar og fagsvið
  • þróa staðbundin samstarfsnet í þátttökulöndunum sem tengjast á norrænum samstarfsvettvangi þar sem unnið verður að því að efla norrænt notagildi,
  • auka áhuga ungs fólks á náttúrufræðum, sköpun og tækni í því skyni að styrkja samkeppnishæfni Norðurlandanna á framsækinn hátt,
  • þróa veflægan starfsvettvang án landamæra fyrir norrænt samstarf milli mismunandi faghópa sem verður áfram til eftir að verkefninu lýkur.

 

Nánari upplýsingar
Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir og Auður Rán Þorgeirsdóttir
Mennta- og menningarmálaráðuneytið,
Sölvhólsgötu 4, 150 Reykjavík
Sími: 545 9500
Netföng: arnfridur.valdimarsdottir@mrn.is og audur.ran.thorgeirsdottir@mrn.is