ERMOND

Vistheimt gegn náttúruvá.
Home / Verkefni / Ermond

Náttúruvá er sífelld ógn við tilvist mannlegra samfélaga. Má þar til dæmis nefna flóð, fárviðri, jarðskjálfta, hraðfara landeyðingu og eldgos. Yfir 200 milljónir manna verða árlega fyrir verulegum áhrifum af náttúruvá. Að sumu leyti eru samfélög nú viðkvæmari fyrir náttúruvá en áður var, sökum aukinnar þéttbýlismyndunar og hnattrænnar samþættingar hagkerfa.

Þanþol vistkerfa

gos_gudmundur

Gos í Eyjafjallajökli 2010. Ljósmynd: Guðmundur Halldórsson.

Ýmis náttúruvá steðjar að Norðurlöndunum. Á undanförnum árum hafa fárviðri, flóð og eldsumbrot kostað þar fjölda mannslífa og valdið stórfelldu eignatjóni. Heilbrigð vistkerfi geta á ýmsan hátt dregið úr náttúruvá. Þessi eiginleiki kallast þanþol vistkerfa (e. ecological resilience).

Mörg dæmi eru um að ósjálfbær landnýting skerði þanþol vistkerfa og auki þannig náttúruvá. Landnotkun og uppbygging og nýting náttúruauðlinda þarf að taka mið af þessu. Við þróun Norræna Lífhagkerfisins (NordBio) er brýnt að huga jafnframt að vörnum gegn náttúruvá.

Markmið ERMOND

Markmið verkefnisins ERMOND (stendur fyrir ecosystem resilience for mitigation onatural disasters) er að draga úr náttúruvá á Norðurlöndum með því að efla þanþol vistkerfa. Verkefnið skiptist í þrjú meginþrep:

  1. Taka saman yfirlit um náttúruvá á Norðurlöndum og möguleikum á að byggja upp þanþol vistkerfa gegn  náttúruvá.
  2. Greina möguleika á markvissri uppbyggingu á þanþoli vistkerfa innan ákveðinna svæða og/eða greina.
  3. Gera tillögur um aðgerðir til að efla þanþol norrænna vistkerfa gegn náttúruvá.

Alþjóðleg markmið

ERMOND tengist ýmsum norrænum og alþjóðlegum markmiðum á sviði umhverfismála. Má þar meðal annars nefna að verkefnið rímar vel við markmið Nordic Environmental Action Plan 2013–2018 um endurheimt vistkerfa, sjálfbæra þróun og aðgerðir til að draga úr hnattrænum loftslagsbreytingum. Þá hefur alþjóðasamfélagið viðurkennt mikilvægi þess að byggja upp þanþol vistkerfa gegn náttúruvá og innan Evrópusambandsins er einnig aukin áhersla á slíka uppbyggingu.

ERMOND verkefnið hefur ýmsa snertifleti við Nordic Environmental Action Plan 2013–2018. Má þar meðal annars nefna að verkefnið mun stuðla að endurheimt vistkerfa, efla sjálfbæra þróun og aðgerðir til að draga úr hnattrænum loftslagsbreytingum.

Nánari uppýsingar
Guðmundur Halldórsson, rannsóknarstjóri
Landgræðsla ríkisins
Gunnarsholti, 851 Hella
Símar: 488 3033 og 861 9605
netfang: gudmundurh@land.is