Lífrænn úrgangur til nýsköpunar

Home / Verkefni / Önnur verkefni / Lífrænn úrgangur til nýsköpunar

Í Evrópu hefur verið markviss þróun á sviði úrgangsmála sem miðar að því að draga úr förgun úrgangs og að honum haldið sem lengst innan hagkerfisins, t.d. með endurvinnslu. Þessi þróun kallar á að litið á úrgang sem verðmæti en það gerist ekki fyrr en einhver sér hag í að nýta hann. Ein meginhindrunin sem stendur í vegi fyrir endurvinnslu felist í samspili framboðs og eftirspurnar.

Þess er ekki að vænta að einkaaðili ráðist í endurvinnslu tiltekins úrgangsflokks nema hann sjái fram á hagkvæmni í rekstrinum en sú hagkvæmni ræðst að hluta til á framboði þess úrgangs sem endurvinna á. Þess vegna felst nauðsynlegur hluti þess að ýta undir framleiðslu nýrra vara úr lífrænum úrgangi í því að tryggja nægjanlegt framboð þess lífræna úrgangs sem um ræðir.

Verkefnið, Lífrænn úrgangur til nýsköpunar, snýst um að kortleggja auðlindir í formi lífræns úrgangs í þremur löndum; Íslandi, Færeyjum og Grænlandi. Ákveðið var að einblína á lífrænan úrgang frá fiskiðnaði og sláturhúsum þar sem fiskiðnaður er stærsta atvinnugrein þjóðanna þriggja og landbúnaður er mikilvæg atvinnugrein sem stuðlar að sjálfbærni. Ísland, Grænland og Færeyjar eiga það einnig sameiginlegt að vera afskekkt lönd sem eru háð dýrum flutningum á aðföngum. Því er mikilvægt að kortleggja þær auðlindir sem löndin búa yfir og styrkja tölfræðilegar upplýsingar á því sviði.

Markmið og afurð verkefnisins

Við lok verkefnisins verður til gott yfirlit yfir mismunandi úrgangsstrauma frá fiskiðnaði og landbúnaði. Vonir eru bundnar við að niðurstöður verkefnisins nýtist meðal annars í verkefni sem stýrt er af Matís og nefnist Innovation in food production. Gagnanna verður aflað í samræmi við þarfagreiningu sem Matís vinnur með Umhverfisstofnun. Með þessu á að tryggja að upplausn gagnanna verði með þeim hætti að þau nýtist, án frekari vinnslu, þeim sem hafa áhuga á að nýta viðkomandi auðlind. Matís mun verða tengiliður á milli þeirra aðila þar sem úrgangurinn fellur til og þeirra aðila sem hafa áhuga á að nýta auðlindirnar til nýsköpunar og vöruþróunar.

Afurðir verkefnisins er góð kortlagning á úrgangsauðlindinni og myndræn framsetning á staðsetningu auðlindanna. Slík kortlagning ýtir undir og auðveldar nýsköpun á sviði vöruþróunar, sem styrkir sjálfbæran efnahag þjóðanna.

Nánari upplýsingar veitir:

Guðrún Lilja Kristinsdóttir
Umhverfisstofnun
Tölvupóstur: g.lilja.kristinsdottir@umhverfisstofnun.is
Símanúmer: 591 2000