WoodBio

Hlutverk viðarlífmassa í norræna lífhagkerfinu.
Home / Verkefni / WoodBio

Lífmassi er í grunninn lífrænt efni sem gengur af í líffræðilegum ferlum og gefur meðal annars möguleikann á vinnslu endurnýjanlegrar orku. Þegar rætt er um lífmassa er yfirleitt átt við afurðir eða aukaafurðir úr skógrækt og landbúnaði. Lífmassi er meðal þeirra orkugjafa sem munu koma í stað jarðefnaeldsneytis til að draga úr aukningu gróðurhúsaáhrifa.

Verkefnið  WoodBio  fjallar um viðarlífmassann sem fellur til við almenna umhirðu og grisjun skóga, við timburvinnslu og frá skógum sem eru ræktaðir sérstaklega til framleiðslu á lífmassa. Þátttakendur í verkefninu koma frá Norðurlöndunum fimm, frá háskólum, rannsóknastofnunum og úr einkageiranum.

Afurðir

Dæmi um afurðir WoodBio verkefnisins:

  • Nákvæmar upplýsingar um núverandi notkun viðarlífmassa á Norðurlöndum og efnahagslegt mikilvægi hans.
  • Spá um framtíðarþörf viðarlífassa á Norðurlöndum (2020 og 2050), bæði hvað varðar hefðbundna notkun í orkuvinnslu (brennsla) og vinnslu á fljótandi eldsneyti (t.d. vínanda). Einnig hlutverk lífmassans við framleiðslu á textíl, lífefnum og kísilmálmi (sólarkísill).
  • Upplýsingar um hvernig auka megi framleiðslu á lífmassa með skógrækt, listi yfir bestu trjátegundir og klóna fyrir hvert landsvæði á Norðurlöndum með tilliti til veðurfars.
  • Upplýsingar um hvar hægt er að rækta hraðvaxta skóga til lífmassaframleiðslu, er nægjanlegt landrými til staðar, hvernig er lagaumhverfið á Norðurlöndum varðandi ræktun hraðvaxta tegunda (akurskógrækt).
  • Upplýsingar um hvað vörur er arðbærast að framleiða úr viðarlífmassa.

Akurskógrækt

Fyrirsjáanleg er mikil aukning í eftirspurn eftir lífmassa á Norðurlöndum og þá aðallega til orkuvinnslu og framleiðslu á lífeldsneyti. Mikilvægur þáttur verkefnisins snýr að því hvernig auka megi framleiðslu á viðarlífmassa á sjálfbæran og hagkvæman hátt. Skógrækt sem miðar að lífmassaframleiðslu nefnist akurskógrækt og hefur mun styttri ræktunarlotu en skógrækt sem ætluð er til timburframleiðslu. Algeng ræktun varir í 3-20 ár og þær trjátegundir sem mest eru notaðar á Norðurlöndum til akurskógræktar eru ýmsar hraðvaxta tegundir víðis og aspa.

Á síðustu áratugum hefur skógrækt sem miðar að lífmassa-framleiðslu færst mjög í vöxt. Viðurinn hefur verið nýttur til pappírsframleiðslu og til beinnar brennslu, en nú er í vaxandi mæli leitast við að þróa hagkvæmar aðferðir til þess að framleiða fljótandi eldsneyti (lífeldsneyti) úr lífmassanum einkum vínanda (etanól), (oft nefnt önnur kynslóð lífræns eldsneyti). Töluvert hefur verið framleitt af vínanda með með bruggun korns (fyrsta kynslóð lífræns eldsneytis), en mörgum þykir það sóun, þar sem korn ætti fremur að nýta til manneldis eða fóðurs.

Ísland

Í Íslandi er aðeins ein kyndistöð sem nýtir viðarlífmassa en þar er kyndistöðin á Hallormsstað sem Skógarorka ehf á og rekur.  Kurlið sem kyndistöðin kaupir kemur úr Hallormsstaðaskógi eða nálægum jörðum. Uppsett orkugeta er 500KW (0.5 MW). Áform eru um að koma á fót viðarkyndistöð í Grímsey sem myndi brenna íslenskum viðarkögglum og leysa þannig að hólmi brennslu olíu til húshitunnar. Mestur hluti þess viðar sem fellur til við grisjun á skógum Íslands fer í dag til Elkem á Grundartanga, þar er viðurinn kurlaður og nýttur sem kolefnisgjafi við kísilmálmvinnslu.

Sjá nánar á vef WoodBio

Nánari upplýsingar
Dr. Ólafur Eggertsson, sérfræðingur
Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins
Mógilsá, 116 Reykjavík
Símar: 470 2091 og 690 4724
Netfang: olie@skogur.is